Notalegt umhverfi allt árið

Umhverfi og útisvæði á Orkureitnum eru hönnuð og byggð með það að markmiði að auka lífsgæði íbúa – allt árið um kring. Inngarðarnir verða hlýlegir og notalegir þar sem einnig er hugsað fyrir því að á veturna sé hægt að dvelja þar, fara um á snjóbræddum gönguleiðum eða sitja á sérhönnuðum upphituðum bekkjum.

Spjallað í garðskála

Í inngarðinum næst húsi D verður vistlegur garðskáli þar sem kjörið verður að setjast innan um fallegan gróður, með svaladrykk á sumrin eða kakóbolla á veturna, eiga þar spjall við nágranna eða gesti og gangandi.

Hönnun sem byggir á góðri hugmynd

Útisvæðinu er skipt upp í fjóra hluta sem hver hefur sitt sérkenni. Einn er með tjörn og vatni sem hægt er að dvelja við, annar er með garðskála með matjurtaræktun, þriðji með hreyfistöðvar og leiktæki og sá fjórði er hugsaður sem staður til að íhuga í ró og næði.

Hugmyndin er að hægt sé að auðga mannlífið á Orkureitnum með góðu skipulagi sem gerir samfélagið betra. Því á Orkureitnum á íbúum að líða vel – allt árið um kring.

Grænt, fjölbreytt og nærandi

Heildaryfirbragð Orkureitsins verður grænt og fjölbreytt og ólíkt öðrum almenningsrýmum borgarinnar. Á móti formföstu yfirbragði torgsvæða bera græn svæði með sér villt yfirbragð, með villtum trjágróðri, grösum og votlendisgróðri sem kemur til með að skapa skemmtilegar andstæður í borgarumhverfinu. Fallegir inngarðar flæða saman í Orkutorgið sem verður vettvangur iðandi mannlífs.

Jón Rafnar Benjamínsson leiðir landslagshönnun á Orkureitnum fyrir hönd Nordic Office of Architecture. Jón nam umhverfisskipulag við Landbúnaðarháskóla Íslands og landslagsarkitektúr við Kaupmannahafnarháskóla. Hann er margreyndur í faginu, hefur starfað á ýmsum stofum hér og í Danmörku og hefur um árabil unnið við fjölbreytt verkefni hérlendis sem erlendis sem snúa að hönnun almenningsrýma, borgar- og útivistarsvæða.

Jón Rafnar Benjamínsson leiðir landslagsarkitektúr á Orkureitnum

Snjöll nýting ofanvatns

Blágrænar ofanvatnslausnir setja svip á svæðið en þær ganga út á að nýta vatn með náttúrulegri hætti. Þegar byggð rís með steyptum byggingum og þéttu malbiki vill regnvatn og leysingavatn safnast saman á ógegndræpum flötum í stað þess að seytla niður í jarðveg með náttúrulegum hætti. Græn þök verða á byggingum Orkureitsins. Stór hluti regnvatns stöðvast í þeim gróðri en regnvatn sem lendir á jörðinni og umframvatn af þökum verður leitt í rásir á yfirborði í átt að gróðursvæðum hér og hvar um reitinn, sem verða um leið lífvænlegri, fallegri og ákjósanlegri vistkerfi.

Hlýlegri og betri borg

Frá sjónarhóli landslagsarkitekts eru meginkostir slíkra ofanvatnslausna þau uppbrot í borgarmyndina sem skapast. Þeim fylgja grænni og vistlegri svæði sem gera borgina hlýlegri og fallegri og það stuðlar síðan að betra lífi og bættri lýðheilsu borgarbúa. Litlar gróðurvinjar hér og þar verða skemmtileg uppbrot á hörðum yfirborðsefnum borgarlandslagsins og kjörin ástæða fyrir íbúa að tylla sér niður utandyra með kaffibollann sinn.

Tjörn með villtum gróðri

Reiknað er með að meginþorri alls regnvatns skili sér að lokum í regnbeð sunnan við núverandi Orkuhús þar sem gert er ráð fyrir grunnri tjörn með votlendisgróðri í jöðrum, en bakkar hennar verða grónir og hafa yfir sér villt yfirbragð. Unnið verður með innlendar harðgerðar plöntutegundir sem krefjast lítils viðhalds og stuðla að líffræðilegum fjölbreytileika borgarlandslagsins.

Endurnýting byggingarefnis

Í allri hönnun og framkvæmd er áhersla lögð á endurnýtingu efnis úr þeim eldri byggingum sem þurftu að víkja innan reitsins. Húsveggir eru sagaðar niður í fleka sem nýtast í torg, gönguleiðir og stiklusteina. Súlur úr fyrrum viðbyggingu Orkuhúss verða stólpar í bryggju við safntjörn og annað nýtt í bekki, setstalla, gólf eða mulið í fylliefni. Tré sem nauðsynlegt var að fella verða nýtt í borð, bekki, pallaefni, leiktæki, klæðningar innanhúss eða trjákurl í gróðurbeð og fleira.

Heillandi útisvæði
div